Grunur um kynferðisofbeldi

Ef grunur vaknar um að barn hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

  • Gott er að barnið finni að það getur treyst þér og að þú sért ekki hrædd/-ur að heyra hvað það hefur að segja.
  • Eitt af því sem hægt er að gera er að tala um leyndarmál, að stundum geti leyndarmál verið vond eða erfið og þá sé gott að segja frá þeim.

Barn segir frá:

  • Hlustaðu vel á frásögn barnsins og leyfðu því að ljúka máli sínu.
  • Haltu ró þinni og varastu að sýna svipbrigði sem lýsa ótta og örvæntingu.
  • Spurðu almennra spurninga án þess að spyrja nánar út í einstök atvik eða draga upp úr því nákvæmar lýsingar.

Stofnanir sem taka við tilkynningum um kynferðisofbeldi:

  • Barnaverndarnefndir starfa í öllum bæjarfélögum. Nánari upplýsingar um þær má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu www.bvs.is. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig beri að bregðast við, ef grunur leikur á að brotið hafi verið á barni. Barnaverndarnefndir hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki sem tekur við tilkynningum og gerir viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.
  • Neyðarlínan 112 er opin allan sólarhringin – alla daga ársins. Símanúmerið 112 veitir aðgang að öllum barnaverndarnefndum landsins. Hafa ber í huga að hægt er að hringja og óska eftir aðstoð þó ekki sé fyrir hendi fullvissa um að brotið hafi verið á barni. Þú ert kannski sá eini/eina sem talar fyrir hönd barnsins. Hringdu þótt þú sért í vafa.
  • Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu barnhúss. Ítarlegri upplýsingar um þjónustu barnahúss er að finna á heimasíðu barnahús www.barnahus.is eða í síma 5302500.
  • Ef þú ert óviss um næstu skref varðandi tilkynningu á barni, má hafa samband við Blátt áfram í síma 533 2929 eða blattafram@blattafram.is